top of page

Skuggabrúin - þríleikur

Skuggabrúin er þríleikur sem gerist í fjarlægri framtíð. Jörðin er eyðileg og myrk, stjörnurnar slokkna á himni, og ný tegund mannfólks, stjarneygingar, berst fyrir lífi sínu á Norðurheimskautinu. En þrátt fyrir að mannkynið sé horfið, eru menjar um það í ísnum og skuggabrúin, helsta afrek mannfólksins, umlykur jörðina sem nágrind. Fyrsta bókin, Skuggabrúin (2022), opnar kaldan og myrkan heim fyrir lesendum; annað bindið, Svikabirta (2023), er morðsaga á mörkum furðusögu og vísindaskáldskapar; þriðja bókin, Heiðmyrkur (október-nóvember 2025), lokar sögunni bæði í fortíð og framtíð. Örlög stjarneyginganna Dimmbrár og Hnikars liggja sem rauður þráður gegnum allt verkið.

Heiðmyrkur

Svikabirta

Þriðji hluti - Storytel & Sögur útgáfa 2025

„Dulræn og mögnuð vísindaskáldsaga.“ Alexander Dan

„Lokahnykkurinn á metnaðarfullum þríleik sem markar spor í íslenska furðusagnahefð.“ Hildur Knútsdóttir

Áratug eftir atburði Svikabirtu sækja illir draumar á Dimmbrá. Djúpt í iðrum jarðar kynnist hún leyndustu kimum seiðsins. Hnikar reikar um heimskautið uns hann finnur ný heimkynni langt í suðri; óafvitandi kallar hann Dimmbrá til sín með ófyrirséðum afleiðingum. Indra vex úr grasi á Bifröst uns hún stígur niður, þess albúin að leggja jörðina að fótum sér. Í bakgrunni er uppruni stjarneyga fólksins, útdauði mannkynsins og endalok skuggabrúarinnar.

 

Í Heiðmyrkri lýkur Ingi Markússon sögunni sem hófst með Skuggabrúnni og hélt áfram í Svikabirtu, bókum sem vakið hafa verðskuldaða athygli og lof. Heiðmyrkur bindur þríleikinn saman í myrkri frásögn á mörkum fantasíu og vísindaskáldskapar – sögu um vináttuna og hefndina; lífið og eilífðina; vitundina og vélina; ljósið, myrkrið og skugga mannsins.​

Annar hluti - Storytel & Sögur útgáfa 2023

Færir okkur á nýjar slóðir í skuggaveröld fyrri bókarinnar, snjöll og yfirnáttúruleg morðsaga með tilheyrandi töfrum og myrkraverkum.“ Gunnar Theodór Eggertsson

„Hér er komin bók sem rígheldur lesandanum frá upphafi til enda!“ Jón Atli Jónasson

Fáeinum árum eftir að himnarnir opnuðust eru grimmileg morð framin á heimskautinu. Sú eina sem getur stöðvað morðingjann er máttug norn sem er fangelsuð í fjarlægu landi. Agni, listhagur pörupiltur í neðanjarðarborginni Neðra, leggur á flótta eftir að hafa verið dæmdur til dauða. Brátt flækist hann í ógnvænlega atburðarás og tekst á hendur ferðalag yfir íshelluna í von um að kaupa frelsi nornarinnar og binda enda á illvirkin – en skugginn sem læðist er ávallt skrefi á undan. 

 

Örlög stjarneyginganna Dimmbrár, Hnikars og hrafnsins Uglu, sem lesendur skildu við þegar Skuggabrúin féll, fléttast með óvæntum hætti inn í sprennuþrungna og myrka frásögn.

 

Í Svikabirtu eru lesendur dregnir enn lengra inn í hélaðan heim Skuggabrúarinnar, sem vakti mikla athygli og einróma lof gagnrýnenda. Svikabirta er morðsaga á mörkum fantasíu og vísindaskáldskapar – frásögn um líf og dauða; ljós og myrkur; trú, von og hefnd.

Skuggabrúin

Fyrsti hluti - Storytel 2022 & Sögur útgáfa 2023

„Skuggabrúin er fagurlega smíðuð bók orða sem flytja okkur í sagnaheim af ljósi og myrkri, þar sem ævintýralegar frásagnir fléttast saman í huga lesandans og speglast í persónum og atburðum úr veruleika samtímans.“ Sjón

Í fjarlægri framtíð, á ísilagðri jörð, hafa allar stjörnurnar slokknað nema ein; án hennar væri vetrarmyrkrið algert. Þegar síðasta stjarnan hverfur verða Dimmbrá og Hnikar viðskila og hrekjast á flótta um heimskautið. Ekki er allt sem sýnist og alls staðar grúfir myrkrið yfir, hyldjúpt og kalt. Hvað varð um stjörnuna, hvernig tengist hún skuggabrúnni — verður hægt að afstýra almyrkva? 

 

Skuggabrúin er fyrsti hluti í samnefndum þríleik. Sagan er spennuþrungin og heillandi, frásögn um ofdramb og svik, vetrarkulda og hlýju, ljós og myrkur.

Kápur: Margrét Helga Weisshappel

Ingi Markússon

  • alt.text.label.Twitter
  • alt.text.label.Facebook
  • alt.text.label.Instagram

©2022 Ingi Markússon. Vefstóll: Wix.com

bottom of page